Hörður – Ísbjörninn

  
Fyrsti leikur 2015 tímabilsins var gegn liði Ísbjarnarins. Leikurinn fór 7-2 fyrir Harðverjum. Hinrik Elís skoraði 4 mörk í öllum regnbogans litum m.a með hælnum af 5 metra færi. Haraldur Hannesson skoraði í sínumfyrsta leik í meistaraflokki. Það var svo Ingvar Bjarni sem skoraði 2 mörk á 10 mínútna kafla eftir að hafa komið inn sem varamaður. 2. Flokks maðurinn Dagur Elí gerði 3 stoðsendingar og spilaði mjög vel. Liðið í heild var að spila mjög vel og allir 2.flokks mennirnir áttu góðan leik þá sérstaklega Dagur Elí og Haraldur.

Menn leiksins: Hinrik Elís og Dagur Elí

   

  
  
Sól og blíða

Hörður – Kóngarnir

Knattspyrnufélagið Hörður spilaði við lið Kóngana þann 27. júlí. Kóngar mættu vængbrotnir í þennan leik en einungis 10 menn sáu sér fært að mæta á Ísafjörð. Harðverjar byrjuðu leikinn ákafir og ætluðu ekki að slaka á þrátt fyrir að vera einum fleiri. Fyrsta markið kom á 17. mínutu en þar var að verki Ásgeir Hinrik sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Marktækifærin voru fjölmörg eftir þetta en tréverkið fékk að finna fyrir því 6-7 sinnum í þessum leik.
Á 24. mín skoraði Jón Ingi eftir skemmtilegan samleik og þótti honum svo gaman að skora að hann setti tvö stórglæsileg mörk í viðbót. Markið sem fullkomnaði þrennuna var af 25 metrum þar sem boltinn söng ofarlega í bláhorninu.
Kóngarnir reyndu að beita skyndisóknum en varnarlína Harðverja var sterk og ekkert fór í gegnum Axel, Akkerið á miðjunni.
Fimmta og síðasta markið kom á 78. mínutu þar sem Hafsteinn Þór slapp á gegn eftir flott einstaklingsframtak og lyfti boltanum í markvörð Kóngana. Skot hans á markið hæfði Hinrik Elís og fór boltinn inn í markið. Dómari leiksins skráði markið á Hinrik en Hafsteinn Þór tekur þeirri ákvörðun eflaust drengilega. Leikurinn endaði með 5-0 sigri Harðverja.
Þessi leikur var kveðjuleikur fyrirliðans,Axel Sveinssonar, sem er að til Danmerkur í skóla. Hans verður sárt saknað en hann er búinn að standa sig frábærlega í sumar og er fyrirmyndar Harðverji innan sem utan vallar.

20140728-092149-33709572.jpg
Axel Sveinsson

Snæfell – Hörður

Þann 28. Júní spiluðu Harðverjar gegn Snæfell í Stykkishólmi.
Fyrsta mark leiksins skoraði Hörður á 10 mínutu. Hinrik Elís fékk stungusendingu innfyrir vörn Snæfells þar sem hann lenti í kapphlaupi við Rúnar Sigurðsson markmann Snæfells um boltann þar sem Hinrik var fljótari og lék á markmanninn og lagði boltann í netið. Leikmenn Snæfells vildu meina að Hinrik hafði lagt fyrir sig boltann með hendinni en Magnús Þór dómari leiksins var ósammála. Snæfell voru fljótir að jafna. Á 11 mínutu fá þeir aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Harðverja. Fyrrum leikmaður KÍB ,Predrag Milosavljevic, tók spyrnuna og skaut boltanum í vegginn þar sem boltinn breytti um stefnu og fór í öfugt horn en Hrafn Davíðsson náði að verja. Snæfellingar voru fljótari að ná frákastinu og skoruðu í autt markið á meðan Harðverjar sátu frostnir eftir á vítateignum.
Hörður voru meira með boltann og sköpuðu sér fín færi á meðan Snæfell vörðust aftarlega og beittu skyndisóknum. Á 53 mínutu skoraði Ásgeir Hinrik skrautlegt mark. Varnarmaður Snæfells sendir boltann tilbaka á markvörð undir pressu Harðverja en boltinn skoppar á þúfu yfir fót Rúnars markmanns. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Ásgeir Hinrik sem lagði hann ,,snyrtilega“ í autt mark Snæfells.
Sem fyrr voru Snæfell fljótir að svara en á 57 mínutu skora þeir úr vítaspyrnu eftir vafasaman vítaspyrnudóm. Miðjumaður Snæfellinga var með fyrirliða Harðar, Axel Sveinsson, í bakinu. Leikmaður Snæfells lætur sig falla með tilþrifum eins og hann hafi verið skotinn í bakið og dómari leiksins bendir á punktinn. Predrag skoraði örugglega úr spyrnunni.
Við þetta settu Harðverjar í 4 gír og Hinrik skorar glæsilegt skallamark á 69 mínutu. Jón Ingi Skarphéðinsson gerði síðan út um leikinn með glæsilegu skoti utan teigs sem söng í netinu. Eftir þetta kæfðu Harðverjar leikinn og leikurinn endaði 4-2 fyrir Harðverjum.
Lið Harðar: Hrafn, Fannar(Rúnar Jón), Axel, Aggi, Tómas Emil, Róbert Boulter, Hákon Dagur, Palli Smelt(Jón Ingi), Ásgeir Hinrik, Jóhann Mar og Hinrik Elís(Ómar Hólm)

20140706-011355-4435043.jpg
Hinrik Elís skoraði 2 mörk

20140706-011440-4480192.jpg
Heppnin var Ásgeiri í liði í öðru markinu

Kóngarnir – Hörður

Harðverjar mættu kóngunum á gervigrasvellinum í Safamýri í Reykjavík þann 31. maí síðastliðinn. Reykjavíkurdeild Harðar hefur æft á vellinum í vetur og voru því kunnugir staðarháttum þegar leikur bar að garði. Það var þó ekki að sjá þegar leikurinn hófst en sárafátt gerðist í leiknum framan af. Kóngarnir lágu á vítateignum saddir og sælir með að halda þessu á núlli. Þeir náðu þó að pota inn marki á 37. mínútu með vel útfærðri skyndisókn og var þar Gunnar Ormslev að verki. Hann ásamt öðrum var búinn að fá áminningu í leiknum en Kóngarnir voru viljugir til þess að láta sig fljúga í tæklingar.
​Í hálfleik fór Tómas Emil í markið en stjörnuleikmaður Harðar, Hrafn Davíðsson, meiddist í fyrri hálfleik þegar Fannar Már hræddi úr honum líftóruna í vítateignum. Hafsteinn og Jóhann Mar komu inn á fljótlega í seinni hálfleik og áttu svo sannarlega eftir að hafa áhrif. Með þeim kom krafur og leikgleði í leik harðarmanna sem skilaði marki á 61. mínútu. Þar var Jóhann Mar að verki með skoti á nærstöng eftir að boltinn barst til hans í vinstra vítateigshorninu. Þorgeir Jónsson kom inn á 72. mínútu en eitthvað þóknaðist dómaranum það ekki og gaf honum gult fyrir skort á formsatriðum. Hann var síðan sendur af velli rétt fyrir leikslok þegar að hann fór háskalega í kóng og fékk að líta rauða spjaldið. Harðverjar gáfu þó ekki árar í bát og skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma þegar að Ásgeir Gísla beitti sínum alræmdu krúsídúllum, skaut lausu skoti sem markmanninum tókst að missa. Hafsteinn var þar réttur maður á réttum stað, þakkaði markmanninum kærlega fyrir gjöfina og potaði boltanum í autt markið. Þrjú stig í hús fyrir Ísfirðinga, 2-1 sigur staðreynd.

Hörður – Snæfell

knattsHordur

Knattspyrnufélagið Hörður spilaði sinn fyrsta leik á Íslandsmóti í knattspyrnu í 30 ár þegar þeir tóku á móti liði Snæfells frá Stykkishólmi. Fyrir leikinn var Högni Þórðarson, fyrrum bankastjóri og formaður Harðar heiðraður fyrir störf sín í þágu félagsins. Hörður Högnason, sonur Högna, tók við viðurkenningu fyrir hönd föðurs síns.

Leikurinn fór rólega af stað en Harðverjar voru talsvert meira með boltann og sköpuðu sér hættuleg færi. Leikmenn Snæfells spiluðu þéttan varnarleik og sóttu lítið upp völlinn. Hólmarar áttu þó skot í slá úr aukaspyrnu þegar 10 mínutur voru eftir en heilladísirnar voru með Ísfirðingum. Leikurinn endaði 0-0. Frammistaða heimamanna var til fyrirmyndar þó svo að boltinn vildi ekki inn í markið. Það var gott samspil og kröftugur varnarleikur sem gefur góð fyrirheit fyrir næstu leiki.