Tvíhöfði á helginni

Næstu helgi fara Harðverjar í víking suður þar sem þeir spila 2 leiki. Fyrri leikurinn er gegn liði Ísbjarnarins föstudaginn 23. júní  kl 19:00 á gervigrasi fyrir utan Kórinn í Kópavogi. Seinni leikurinn er gegn Hamar í Hveragerði sunnudaginn 25. júní kl 13:00. Leikurinn er spilaður á Grýluvelli sem er einn flottasti grasvöllur landsins.

Við biðjum stuðningsmenn Harðar fyrir sunnan að fjölmenna og styðja sína menn til sigurs!

Eitt lið, ein heild

Sumarið til þessa

Nú er heimasíðan að fara á skrið aftur eftir að hafa legið undir feldi.

Knattspyrnufélagið Hörður eru búnir að spila þrjá leiki til þessa. Fyrsti leikurinn var á móti Hvíta Riddaranum sem tapaðist 7-3. Leikurinn var jafn á köflum en Riddararnir skoruðu flest sinna marka úr föstum leikatriðum.

Næsti leikur var gegn GG sem fór 2-2 jafntefli og þar voru Harðverjar að spila sinn annan leik á þrem dögum. Fyrsti heimaleikurinn var þann 5. júní gegn Kórdrengjum. Sá leikur fór 2-2 þar sem Kórdrengir náðu að jafna þegar lítið var eftir af leiknum.

Næsti leikur Harðverja eru 23 og 25 júní þar sem við spilum á móti Ísbirninum og Hamar frá Hveragerði.

Harðverjar sigruðu Garðbæinga

Knattspyrnufélagið Hörður spilaði gegn liði KFG laugardaginn 4. júlí. Veðurguðirnir voru svo sannarlega hliðhollir Harðverjum, rjómablíða og spegilsléttur pollurinn. Þetta var einnig fyrsti leikur sumarsins á grasvellinum við Torfnes. Vel var mætt í stúkuna enda ekki á hverjum degi sem áhorfendur fá frítt kaffi og meðlæti yfir knattspyrnuleik. Þess má geta að þjálfari KFG er enginn annar en Lárus Guðmundsson fyrrum atvinnumaður í Þýskalandi og íþróttalýsandi.

Byrjunarliðið var þannig skipað:

                               Jóhann Baldur

Geiri Gumm   Daníel    Tómas Helgi   Ásgeir Kristján

Óttar Helgi      Haraldur   Axel(F)     Andrés Hjörvar

                      Hafsteinn Þór  Hinrik Elís

Harðverjar byrjuðu tilbaka og teymuðu gestina framar, en sóttu svo af krafti í formi skyndisókna. Geiri Gumm meiddist fljótlega í leiknum en Dagur Elí kom inn á í hans stað en þá fór Hjörvar í vinstri bak og Dagur Elí á hægri kannt. Óttar Helgi færði sig yfir til vinstri. Þessi skipting svínvirkaði því að Hjörvar og Óttar gjörsamlega áttu vinstri vænginn og voru bæði líflegir í vörn og sókn. Tómas Helgi var eins og tveggja hæða rúta og strönduðu sóknir KFG oft hjá varnarmanninum unga. 

Á 59 mínutu skoruðu Harðverjar fyrsta markið. Þar var að verki bolvíkingurinn Hafsteinn Þór Jóhannsson. Stungusending var of löng innfyrir vörn KFG og náði Sigurður Helgi hafsent boltanum. Hafsteinn gaf í og elti Sigurð, stal af honum boltanum og renndi honum framhjá markmanni KFG. Þetta mark var dæmi um dugnað og hungur Harðverja í þessum leik. KFG áttu nokkur hættuleg færi í lokinn en Jóhann Baldur og vörnin sá til þess að boltinn rataði ekki innfyrir í þessum leik. 1-0 sigur Harðverja var staðreynd og mikil fagnaðarlæti brutust út. Þessi sigur skilaði Harðverjum í annað sætið með 10 stig.

Það var mjög erfitt að velja mann leiksins í þessum leik. Allir leikmenn liðsins börðust saman sem ein heild. En Hjörvar og Óttar voru fremstir í flokki í þessum leik og sýndu frábæra takta í vörn sem og í sókn.

  
Hjörvar og Óttar voru menn leiksins

Stál í stál gegn Stál-Úlfi

Knattspyrnufélagið Hörður tók á móti Stál Úlfi á gervigrasinu á Torfnesi þann 28.júní síðastliðin. 

Lið Harðar var þannig skipað:

                              Aron

Ásgeir Gumm Daníel Axel Fannar

                      Haraldur

Dagur     Hjörvar  Gísli    Óttar
                    Ingvar Bjarni

  
Leikmenn Harðar byrjuðu mun betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Varnarmaður Stál Úlfs átti slæma sendingu aftur á markmann en Gísli Rafns hljóp eins og byssubrandur, náði boltanum og lagði hann í vinstra hornið, einstaklega vel gert hjá þessum efnilega leikmanni.

Annað mark Harðar skoraði Óttar með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Ingvari frá hægri. Ingvar er ekki bara stór og stæðilegur heldur getur hann einnig breytt sér í ýmis kvikinda líki en þessi fyrirgjöf var gullfalleg.

Rétt fyrir hálfleik skoruðu Stál Úlfur en þar var að verki Guðmundur Sindri Hafliðason en markið var stórglæsilegt. Fallegt samsbil og nokkrar krúsídúllur og boltinn söng í fjærhorninu, óverjandi fyrir Aron markvörð. Á 64 mínutu jöfnuðu Stál Úlfs menn en þá slapp Rúben Felipe Vasques Narciso í gegn og lagði hann í fjærhornið framhjá Aroni. Hörður gat stolið sigrinum í lokin en Sverrir Úlfur var aðeins centimetrum frá því að setja boltann inn eftir sendingu frá hægri kantinum. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

Aron spilaði gríðarlega vel í markinu og varði tvisvar 1 á móti 1 og átti eina sjónvarpsmarkvörslu. 

3 leikmenn spiluðu einnig 90 mínútur daginn áður þeir, Haraldur, Dagur og Gísli. Það var ekki að sjá á þeim í seinni leiknum og fá þeir mikið hrós fyrir dugnað.

Harðverji leiksins var þó Daníel Ari sem var eins og klettur í vörninni og stoppaði sóknir Stál Úlfs fjölmörgum sinnum.

  
Daníel Ari var Harðverji leiksins

Örninn – Hörður

Pistil skrifar Gunnlaugur Jónasson

Byrjunarlið:

                Jóhann

Ásgeir – Gulli – Haffi – Fannar

               Haraldur

        Þröstur Hafsteinn

Ásgeir Gísla                Hjöbbi

                 Hinrik

Það var augljóst í upphafi leiks að flestir leikmenn Harðar hefðu spilað leik daginn áður. Lagt var upp með að liggja til baka og verjast til að fá tilfinningu fyrir andstæðingnum og nýta tækifærið þegar gæfist til að sækja hratt. Varnarþátturinn gekk mjög vel og komust leikmenn Arnarins aðeins einu sinni í álitlegt færi þegar boltinn datt fyrir fætur framherja þeirra inní vítateig en skot hans voru bæði varin, fyrst af Gulla og svo af Jóhanni i markinu áður en boltanum var hreinsað í burtu. Að öðru leiti komust þeir ekki nálægt markinu og stóð unglambið Haraldur sig gríðarlega vel í að verja öftustu línu og sýndi sér eldri mótherjum litla virðingu. Sóknarlega gekk Harðverjum þó brösulega að tengja saman sendingar og greinileg þreytumerki á leikmönnum þar sem einfaldar sendingar og færslur voru að klikka. Seinni háfleikur byrjaði líkt og sá síðari. Arnarmenn meira með boltann en sköpuðu sér lítið. Það var þó á 52.mínútu sem boltinn barst frá hægri væng Arnarins yfir á þann vinstri og gömlu mennirnir hægra meginn í varnarlínu Harðar voru seinir að bregðast við svo að Alexander Freyr Sigurðsson náði hnitmiðuðu skoti neðst í fjærhornið. Við það lifnuðu Harðverjar eilítið við. 10 mínútum seinna ætlaði markmaður Arnarins að spyrna frá marki sínu þegar fyrirliðinn Hafsteinn var í rólegheitum að skokka úr teignum til að koma sér í stöðu. Varnarmaðu Arnarins var lítt hrifinn af nærveru Hafsteins og ákvað að veita honum þéttingsfast fast högg í bringuna. Stjarnfræðilega heimskulegt og hann rekinn í sturtu ásamt því að vítaspyrna var dæmd. Markamaskínan Hinrik Elís Jónsson steig á punktinn og skoraði með þéttingsföstu skoti niðri í vinstra hornið. Markmaðurinn var í boltanum en stærðfræðin var einföld, Lærin á Hinrik > Líkamsstyrkur markvarðar. Eftir þetta færði Hörður sig framar á völlinn og pressaði Örninn hátt á vellinum. Áttu heimamenn í stökustu vandræðum með að spila boltanum frá sér og þrumuðu honum ýmist útaf eða beint fram á pönnuna á Haffa. Stíf pressan skilaði loks árangri undir lok venjulegs leiktíma þegar hinn síungi Ásgeir Guðmundsson átti sprett upp hægri kantinn eins og bakverðir gjarnan gera og lyfti boltanum silkimjúkt inn fyrir vörnina þar sem Axel tók á móti honum og sendi hann fyrir markið á Hinrik sem stangaði hann af miklu afli í samskeytin nær. Leiktíminn rann út án vandræða og sigur í hús. Þar sem ekki var mikið á tanknum eftir leik laugardagsins var þetta ekkert annað en karaktersigur. Síðustu 25-30 mínúturnar voru algjörlega eign Harðar og virtust allir vera búnir að gleyma þreytu og þrekleysi. Erfitt er að benda á einn leikmann sem bar af en þó verður að hylla aldursforsetann Ásgeir Guðmundsson og veita honum titilinn Harðverji leiksins. Þrátt fyrir að vera þrítugur og hafa spilað klukkutíma daginn áður munaði honum ekkert um að bjóða uppá áætlunarferðir upp vænginn fram í uppbótartíma og var það einmitt úr einni slíkri sem sigurmarkið kom.
  
Ásgeir Guðmundsson var maður leiksins

Skínandi – Hörður 

Pistil skrifar Þórir Karlsson

Laugardaginn 12. júní síðastliðin mættu Harðverjar liði Skínanda á Samsung-vellinum í Garðabæ. Lið Skínanda er saman sett úr mörgum efnilegum leikmönnum Íslandsmeistara Stjörnunar, má með sanni segja að okkar menn áttu í þó nokkrum vandræðum með þetta unga og létt leikandi lið.

Okkar menn settu leikinn þannig upp að þeir ætluðu að liggja til baka og beita skyndisóknum. Fyrri-hálfleikur spilaðist ágætlega fyrir okkar menn, þós svo að þeir næðu ekki að ógna marki Skínanda að neinu ákveðnu ráði. Í hálfleik var staðan 1-0 fyrir Skínanda, en Harðverjar voru þó inní leiknum ennþá. Harðverjar áttu margar efnilegar skyndisóknir í fyrri hálfleiknum, en slæmar og óhnitmiðaðar sendingar komu í veg fyrir að eitthvað yrði úr þeim. 
Í hálfleiknum voru menn orðnir óþolinmóðir og vildu fara að koma sér úr skotgröfunum og reyna að ógna meira. 
Það er eitthvað sem okkar menn hefðu ekki átt að gera, heldur hefðu þeir átt að halda þolinmæðinni, því á fyrsta korteri seinni hálfleiksins bættu Skínanda menn við tveimur mörkum og staðan orðin 3-0. En þegar 20 mínútur voru eftir minnkaði varafyrirliðinn, Hafsteinn Þór Jóhannsson muninn og okkar menn komnir aftur inní leikinn.  
Eftir það sloknaði á okkar mönnum og fylgdu tvö mörk frá Skínada í kjölfarið. Seinna markið hefði þó aldrei átt að standa en í aðdraganda þess var brotið á leikmanni Harðar.
Haraldur Jóhann Hannesson var ljósi punkturinn í liði Harðar í leiknum og var valinn Harðverji leiksins, en Haraldur var mjög sterkur á miðjunni og braut margar sóknir Skínanda niður.
  
Haraldur var maður leiksins